sunnudagur, 9. júní 2013

Vampíra er enn á stjá

Myndasagan Vampíra eftir Sirrý & Smára.
„Helvíti er líf sextán ára unglings sem lifir á milli þess að nenna ekki að gera neitt og að nenna ekki að gera ekki neitt.“

Það getur gengið á ýmsu þegar angist táningsins sveiflast upp í hæstu hæðir. Þetta er umfjöllunarefni íslensku myndasögunnar Vampíru. Þessi þrælfína saga eftir Sirrý & Smára (já, við erum að tala um okkur í þriðju persónu!) kom út síðla árs 2012. Henni var þá dreift í verslanirnar Nexus, Ranimosk, IÐU og Bókabúð Máls og menningar.

Vampíra fjallar um Krissu, 16 ára stelpu úr Reykjavík, og átök hennar við sjálfsmyndina og samfélagið. Þar er tekið á vanda sem allir ættu að kannast við; því inn við beinið (og óháð aldri) erum við öll blygðunarlaus ungmenni í borg óttans, þar sem kaldur veruleikinn bítur frá sér. Vampíra býður fram lifandi persónur sem eiga rætur að rekja í íslenskan raunveruleika. Myndasöguforminu er beitt af fagmennsku, og virðingu við það listform, til að hnýta saman forvitnilega og spennandi frásögn.

Fyrir nokkru kláraðist Vampíra úr hillum Nexus við Hverfisgötu. Nú hafa þeir hins vegar fengið til sín nýja sendingu og því ekkert sem stöðvar bókþyrsta lesendur frá því að grípa sér glóðvolgt eintak. Við mælum eindregið með að allir kynni sér Vampíru. Sagan er tilvalin til yndislesturs eða til að kynna sér nýjungar í íslenskum myndasögum. Þá má einnig líta í hana til að kynna sér þá fjölbreytni sem við hyggjumst færa ykkur með okkar sögusmíðum. Ef þið hafið kynnt ykkur vefmyndasögurnar um Míu & Mjálmar, þykir okkur við hæfi að nefna að Vampíra er ekki ætluð yngri lesendum.

Hér má lesa gagnrýni í Vampíru á bókmenntavefnum: http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read-34304/6711_view-5191/

Að lokum, fyrir þá sem vilja hafa lítið fyrir hlutunum, má nálgast Vampíru í vefverslun Nexus, hér: http://nexus.is/vefverslun/mynda/47592-vampira.html

mánudagur, 27. maí 2013

Martraðamaskínan

Bíðið við, eigum við ekki að vera að sjá um eitthvað blogg hérna? Vorum við búin að gleyma því? Nei, en við erum búin að vera önnum kafin við að skipuleggja æsispennandi ævintýri og búa vel að áframhaldandi göngu Míu & Mjálmars, því það er ýmislegt fram undan hjá þessu frábæra teymi!

Ný blaðsíða, full af ógleymanlegu skemmtiefni, mun hér eftir birtast á vefnum aðra hvora viku. Þannig gegur allt á hraða sem hentar okkur, og kemur vonandi vel til móts við þolinmæði lesenda. Þriðjudaginn 21. maí færðum við ykkur kaflann „Allt í flækju.“ Nú er splunkunýr og glæsilegur kafli vel á veg kominn:

Eftir glæstan sigur Míu & Mjálmars gegn góðkunnum óþokka, í kaflanum „Hamingjan í húfi,“ hefur Þremillinn verið festur bakvið lás og slá. Illmenni láta þó ekki lítið fyrir sér fara á Litla hrauni og fyrr en varir skýtur Þremillinn kollinum upp á ný. Auk þess kynnum við betur til sögunnar lögregluþjóninn Lúlla, sem er náinn vinur hetjunnar okkar. Óróleiki ríkir í borg óttans og eitthvað þarf til bragðs að taka.

Nýji kaflinn heitir „Martraðamaskínan.“ Hann mun spanna þrjár blaðsíður og verður sú fyrsta birt á vefsíðunni miaogmjalmar.is þriðjudagin 4. júní! Leggið dagsetninguna á minnið, fylgist með á facebook eða sitjið við tölvuskjáinn og ýtið, í gríð og erg, á „refresh“ á miaogmjalmar.is eins og sönnum óþreyjufullum aðdáendum er lagið ;)

laugardagur, 11. maí 2013

Mía & Mjálmar - Vefmyndasaga

Reykjavík—borg óttans, þar sem ógurlegir skúrkar leika lausum hala. Við búum hvorki í öruggum né eðlilegum heimi. Fjendur og furðufuglar ógna öryggi okkar en það er tvíeyki eitt sem aldrei lætur undan. Mía og Mjálmar beita ýmsum brögðum gegn ógnvænlegum ófreskjum og koma klækjóttum illmennum fyrir kattarnef. Þess á milli njóta þau lífsins í miðborginni, valhoppa um strætin með bros á vör, baka smákökur og sötra kakómalt.

Já, fagnið nú, kæru borgarar—dúndurmagnaða dúóið Mía og Mjálmar eru komin á kreik. Þessar þrælmögnuðu hetjur birtust lesendum í fyrsta sinn í íslenska myndasögublaðinu Ókeipiss þrjú. Blaðið kom út á vegum skrítnubókaforlagsins Ókeibæ og myndasöguverslunarinnar Nexus við gífurlegan fögnuð á ókeypis myndasögudeginum, þann 5. maí síðastliðinn.

Nú halda ævintýri Míu og Mjálmars áfram á veraldarvefnum! Við höfum opnað vefsíðuna miaogmjalmar.is sem hýsa mun myndasögurnar um tvíeykið góða. Fyrsta sagan, sem birt var í blaðinu alræmda, ber heitið “Hamingjan í húfi!”og er nú komin á vefinn. Héðan af munum við halda áfram að færa ykkur æsispennandi ævintýri Míu og Mjálmars með reglulegu millibili. Fylgist með—og óttist ei—því Mía og Mjálmar eru farin á stjá!

miðvikudagur, 8. maí 2013

Gleðjumst!

Í dag gleðjumst við. Eftir stórkostlega lærdómsríka og tímafreka vinnu, er mér ánægjulegt að tilkynna ykkur að splunkuný vefsíða okkar sirryandsmari.com er komin í loftið. Síðan er hönnuð og forrituð af okkur sjálfum—og ber því merki um alla okkar elskulegu kosti og galla. Síðan er gerð til þess að virka í öllum nýjustu vefvöfrum, spjaldtölvum og snjallsímum.

Í dag gleðjumst við, því hér birtum við fyrstu "alvöru" bloggfærsluna okkar. Ætlunin er að hafa þetta lifandi blogg sem segir frá ævintýrum okkar á vinnustofunni, verkefnum í vinnslu o.s.fr. Fyrir alla þá sem þyrstir í örar uppfærslur höfum við opnað facebook síðu! Eins erum við á twitter!

Í dag gleðjumst við yfir öllu mögulegu. Í dag er góður dagur. Fylgist með lesendur góðir, því það er ýmislegt framundan sem gleðjast má yfir.

mánudagur, 29. apríl 2013

Blogg í vinnslu

Örvæntið ekki, lesendur góðir, því Sirrý & Smári bloggið er í vinnslu. Innan skamms verður allt komið á skrið.

Þar til þá,
Smári.