laugardagur, 11. maí 2013

Mía & Mjálmar - Vefmyndasaga

Reykjavík—borg óttans, þar sem ógurlegir skúrkar leika lausum hala. Við búum hvorki í öruggum né eðlilegum heimi. Fjendur og furðufuglar ógna öryggi okkar en það er tvíeyki eitt sem aldrei lætur undan. Mía og Mjálmar beita ýmsum brögðum gegn ógnvænlegum ófreskjum og koma klækjóttum illmennum fyrir kattarnef. Þess á milli njóta þau lífsins í miðborginni, valhoppa um strætin með bros á vör, baka smákökur og sötra kakómalt.

Já, fagnið nú, kæru borgarar—dúndurmagnaða dúóið Mía og Mjálmar eru komin á kreik. Þessar þrælmögnuðu hetjur birtust lesendum í fyrsta sinn í íslenska myndasögublaðinu Ókeipiss þrjú. Blaðið kom út á vegum skrítnubókaforlagsins Ókeibæ og myndasöguverslunarinnar Nexus við gífurlegan fögnuð á ókeypis myndasögudeginum, þann 5. maí síðastliðinn.

Nú halda ævintýri Míu og Mjálmars áfram á veraldarvefnum! Við höfum opnað vefsíðuna miaogmjalmar.is sem hýsa mun myndasögurnar um tvíeykið góða. Fyrsta sagan, sem birt var í blaðinu alræmda, ber heitið “Hamingjan í húfi!”og er nú komin á vefinn. Héðan af munum við halda áfram að færa ykkur æsispennandi ævintýri Míu og Mjálmars með reglulegu millibili. Fylgist með—og óttist ei—því Mía og Mjálmar eru farin á stjá!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli