sunnudagur, 9. júní 2013

Vampíra er enn á stjá

Myndasagan Vampíra eftir Sirrý & Smára.
„Helvíti er líf sextán ára unglings sem lifir á milli þess að nenna ekki að gera neitt og að nenna ekki að gera ekki neitt.“

Það getur gengið á ýmsu þegar angist táningsins sveiflast upp í hæstu hæðir. Þetta er umfjöllunarefni íslensku myndasögunnar Vampíru. Þessi þrælfína saga eftir Sirrý & Smára (já, við erum að tala um okkur í þriðju persónu!) kom út síðla árs 2012. Henni var þá dreift í verslanirnar Nexus, Ranimosk, IÐU og Bókabúð Máls og menningar.

Vampíra fjallar um Krissu, 16 ára stelpu úr Reykjavík, og átök hennar við sjálfsmyndina og samfélagið. Þar er tekið á vanda sem allir ættu að kannast við; því inn við beinið (og óháð aldri) erum við öll blygðunarlaus ungmenni í borg óttans, þar sem kaldur veruleikinn bítur frá sér. Vampíra býður fram lifandi persónur sem eiga rætur að rekja í íslenskan raunveruleika. Myndasöguforminu er beitt af fagmennsku, og virðingu við það listform, til að hnýta saman forvitnilega og spennandi frásögn.

Fyrir nokkru kláraðist Vampíra úr hillum Nexus við Hverfisgötu. Nú hafa þeir hins vegar fengið til sín nýja sendingu og því ekkert sem stöðvar bókþyrsta lesendur frá því að grípa sér glóðvolgt eintak. Við mælum eindregið með að allir kynni sér Vampíru. Sagan er tilvalin til yndislesturs eða til að kynna sér nýjungar í íslenskum myndasögum. Þá má einnig líta í hana til að kynna sér þá fjölbreytni sem við hyggjumst færa ykkur með okkar sögusmíðum. Ef þið hafið kynnt ykkur vefmyndasögurnar um Míu & Mjálmar, þykir okkur við hæfi að nefna að Vampíra er ekki ætluð yngri lesendum.

Hér má lesa gagnrýni í Vampíru á bókmenntavefnum: http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read-34304/6711_view-5191/

Að lokum, fyrir þá sem vilja hafa lítið fyrir hlutunum, má nálgast Vampíru í vefverslun Nexus, hér: http://nexus.is/vefverslun/mynda/47592-vampira.html

Engin ummæli:

Skrifa ummæli